Sími 441-4000

Orð af orði

Orð af orði

 

Orð af orði er þróunarverkefni sem hefur þann tilgang að efla læsi og námsárangur nemenda. Höfundur og rétthafi verkefnisins er Guðmundur Engilbertsson, lektor við Háskólann á Akureyri. 

Orð af orði er sett saman með hliðsjón af fræðilegum forsendum. Byggt er á hugmyndum um samvirkar (interactive) aðferðir og hvernig hugurinn vinnur úr upplýsingum í skynminni með því að færa þær í vinnsluminni og kalla á fyrri þekkingu úr langtímaminni og tengja saman við hið nýja. Hugmyndir verkefnis fela í sér stuðning (scaffold) í formi sýnikennslu í fyrstu, þá kennslu með stigvaxandi þátttöku nemenda allt þar til þeir þurfa ekki lengur á stuðningi að halda.

Megintilgangur verkefnisins er að skapa hagnýtt, sveigjanlegt og árangursríkt tæki sem kennarar geta notað til að efla lesskilning, orðaforða og orðvitund og skapa hvetjandi og jákvætt námsumhverfi fyrir nemendur. Höfuðáhersla er lögð á öflugt málumhverfi, samvinnu, samræðu og skapandi vinnubrögð.

Við verkefnavinnuna er námsefnið í hverjum árgangi sá efniviður sem unnið er með.  Námsefnið er brotið til mergjar stig af stigi og nemendur læra markvisst að rannsaka, skoða og sundurgreina. Þannig eru hugtök brotin niður og ýmis málfræðiatriði dregin fram, en nemendur læra að vinna í gengum ýmis verkfæri eins og  orðaskjóður, krossglímur og hugtakakort svo fátt eitt sé nefnt. Þá er endurbirting hugtaka eða orða mikilvægur þáttur í ferlinu þar sem þau eru notuð aftur (endurbirtast) á fjölbreyttan, greinandi og skapandi hátt.  Dæmi um þetta er ljóðagerð, hvers konar ritun, látbragðsleikir, tjáning og leiklist.

Algengt er að námsgreinar séu fléttaðar saman, þar sem greinar eins og líffræði, samfélagsfræði og íslenska eru samþættar svo dæmi sé tekið. Uppistaðan í íslenskukennslu getur því verið efniviður úr hinum ýmsu greinum.  Þannig má til dæmis vinna með orð eða hugtök úr náttúrufræði og skoða fjölbreytilega eða afmarkaða merkingu þeirra, rannsaka og greina málfræðilega stöðu, beygingu eða stigbreytingu, tíð, fall, hátt, tölu og svo framvegis.

ord2    ord3

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica